Auglýsing!
Skólaslit Grunnskóla Drangsness
Verið öll hjartanlega velkomin á skólaslit Grunnskóla Drangsness skólaárið 2022-2023 fimmtudaginn 1. júní kl. 13:30-15:00
Skólastjóri fer yfir skólaárið
Nemendur yngri deildar syngja nokkur lög
Samsöngur
Veitingar að lokinni dagskrá
EmiLína frumsýnd 1. maí kl. 17:00- leikskrá
Komið er að árshátíðarsýningu Grunnskóla Drangsness en að þessu sinni verður leikverkið EmiLína frumsýnt í samkomuhúsinu Baldri. EmiLína er bræðingur tveggja verka úr smiðju sænska rithöfundarins Astrid Lindgren; barnasöngleiksins Emil í Kattholti og sögum af hinni stórkostlegu Línu langsokk. Hér mætast sem sagt tvær uppáatækjasamar persónur og allt getur gerst!
Leikskráin er hér að neðan á rafrænu formi.
Að sýningu lokinni verður boðið upp á veitingar.
Öll hjartanlega velkomin!
Aðalbjörg Óskarsdóttir – minning
Aðalbjörg Óskarsdóttir, Alla, féll frá þann 18. mars sl. eftir snörp veikindi sem hún tókst á við af miklu æðruleysi.
Alla starfaði sem kennari við Grunnskóla Drangsness frá árinu 2003 og átti því 20 ára starfsafmæli í janúar síðastliðnum. Á þessum 20 árum kenndi Alla fjölmörgum nemendum og bætti sjálf í nemendahópinn en þau Halldór Logi, eiginmaður hennar, eignuðust Sigurbjörgu Halldóru, Guðbjörgu Ósk og Friðgeir Loga á árunum 2004-2012 sem öll hafa numið við skólann. Alla starfaði sem trúnaðarmaður, umsjónarkennari og skólastjóri við skólann ásamt því að taka virkan þátt í félagsstarfi kennara sem stjórnarmaður í Kennarafélagi Vestfjarða. Öll þessi störf vann hún af einurð og var ávallt tilbúin að leysa verkefni, stór og smá ásamt því að leggja öðrum lið.
Eitt af mikilvægustu hlutverkum Öllu hér við skólann var að taka að sér að vera minniskubbur hans, stofnanaminnið sjálft sem reyndist algjörlega ómetanlegt.
Í gegnum farsælan starfsferil Öllu voru starfsmannaskipti nokkuð tíð eins og gengur og gerist í fámennum skólum á landsbyggðinni og þess vegna var hlutverk hennar í skólanum afar mikilvægt. Öll þau sem störfuðu með Öllu eða kynntust henni í gegnum samstarf á milli skóla hér á svæðinu eru henni innilega þakklát fyrir hlýjar og góðar móttökur en ekki síst fyrir að leiða okkur inn í sögu og hefðir skólans og staðarins sem henni þótti svo ógnarvænt um. Fyrir það erum við samstarfsfólk hennar óendanlega þakklát.
Alla var kennari af lífi og sál, hún gaf sig alla í starfið og sýndi nemendum sínum mikla umhyggju. Stelpurnar muna eftir því hvað hún var góð í að flétta og börnin öll hvernig hún gaf þeim orku bara með því einu að koma inn í skólastofuna og brosa. Hún tók þátt í leikjum barnanna, huggaði og sýndi öllum hlýju með mjúku og góðu faðmlagi. Hún var glaðlynd og blíð, eiginleikar sem skipta mjög miklu þegar unnið er með börnum og ungmennum. Sem samstarfsmaður var Alla algjörlega einstök, hún var jákvæð og röggsöm ásamt því að taka virkan þátt í því að gera skólann að skapandi og skemmtilegum vinnustað. Allt starfið í kringum árshátíð skólans, þegar ár hvert er sett upp leikrit í samkomuhúsinu Baldri, bar Alla uppi. Þarna var hún í essinu sínu; leikstýrði, setti upp sviðið, kom að öllu sem þurfti til þess að gera eftirminnilega sýningu að veruleika auk þess að baka pizzur ofan í allan leikhópinn daginn fyrir frumsýningu.
Við munum taka Öllu okkur til fyrirmyndar og halda áfram því góða starfi sem hún vann hér við Grunnskóla Drangsness, við hefðum viljað njóta krafta hennar svo miklu lengur en við munum tryggja að minning Öllu lifi hér í skólanum um ókomna tíð.
Elsku Alla okkar
Elsku yndislega, brosmilda, jákvæða, bjarta, söngelska, lausnamiðaða og úrræðagóða Alla okkar.
Hjartað okkar er í molum og við eigum erfitt með að sætta okkur við bitran raunveruleikann, að þú sért farin frá okkur. Síðustu mánuðir hafa verið erfiðir fyrir ykkur fjölskylduna en jákvæðni og æðruleysið einkenndi ykkur fjölskylduna og þá sérstaklega þig allan þennan tíma. Við vorum allar svo bjartsýnar á að þú myndir sigrast á þessum veikindum. Síðasta heimsókn þín í skólann í janúar til okkar var svo dýrmæt og mun lengi dvelja í hjörtum okkar. Þá varst þú að fara suður til læknis og talaðir um að þetta yrði skottúr suður og þú yrðir komin aftur heim eftir nokkra daga, en svo varð því miður ekki.
Elsku Alla okkar nú er komið að erfiðri kveðjustund og óhugsandi að við munum ekki fá að heyra þig hlæja, syngja eða sjá fallega brosið þitt. Þú munt ávallt vera í hjörtum okkar og við munum gera okkar allra besta til að halda minningu þinni á lofti innan skólans, skólans sem þér þótti svo vænt um og starfaðir við síðastliðin 20 ár.
Elsku Halldór, Sigurbjörg, Guðbjörg og Friðgeir, fjölskylda og tengdafjölskylda við sendum ykkur okkar dýpstu samúðarkveðjur, ljós og styrk á þessum erfiðu tímum.
Minningin um yndislegu Öllu okkar mun lifa
Marta, Heiðrún og Ásta
Við hvetjum þá sem vilja minnast Öllu að leggja krabbameinsfélaginu Sigurvon lið með því að styrkja það 0154-26-002010 Kt. 470102-4540.
Ljósmyndir úr safni starfsmanna skólans
Húrra jólaskemmtun!
Fimmtudaginn 15. desember höldum við okkar árlegu jólaskemmtun í Grunnskóla Drangsness. Börnin munu flytja skemmtiatriði, boðið verður upp á jólalegar veitingar og að lokum verður dansað í kringum jólatréð. Það er aldrei að vita nema nokkrir hressir jólaveinar heimsæki skólann og þá er hægt að treysta því að þeir hafi eitthvað í pokanum sínum handa börnunum.
Skemmtunin hefst stundvíslega kl. 17:00 og lýkur kl. 18:30
Öll hjartanlega velkomin!
Jólatré Grunnskóla Drangsness jólin 2022 sótt
Nemendur Grunnskóla Drangsness sóttu jólatré í skógrækt kvenfélagsins Snótar nú í vikunni. Um árlega hefð er að ræða og verður jólatréð sett upp á jólaskemmtun skólans þann 15. desember nk. Nemendur hjálpast að við að velja tréð ásamt kennurum, saga tréð og koma því í skólann. Við notum einnig tækifærið til þess að gera okkur glaðan dag, leika okkur í skóginum, fræðast um tré og drekka kakó. Í ár voru það þau Guðbjörg Ósk nemandi í 9. bekk og Friðgeir Logi í 5. bekk sem söguðu niður tréð og fengu til þess aðstoð frá Heiðrúnu Helgu kennara. Öll börnin fengu að klippa greinar til þess að skreyta með og áttu ánægjulega stund í skóginum.
Dagur íslenskrar tungu
Dagur íslenskrar tungu er í dag 16. nóvember.
Í tilefni Dags íslenskrar tungu fóru nemendur í heimsókn í Fiskvinnsluna Drang og í búðina og kynntu fyrir fólki nýyrði Jónasar Hallgrímssonar, en dagurinn er einmitt haldinn á fæðingardegi hans.
Nemendur skólans völdu sér hvert eitt af nýyrðum Jónasar til að skoða og myndlýstu svo orðin líka og kynntu bæði orð og mynd fyrir fólki í morgun. Jónas Hallgrímsson er flestum kunnugur en hann er eitt af stórskáldum Íslendinga en hann orti ekki einungis ljóð heldur var hann ötull talsmaður íslenskunnar og bjó til fjöldann allan af nýjum orðum sem nú eru daglega í notkun.
HREKKJAVÖKUPARTÝ
Hryllilegt hrekkjavökupartý verður haldið í skólanum á morgun fimmtudag kl. 18:30-19:30
Öll velkomin!
Dagur íslenskrar náttúru haldinn hátíðlegur í GD
Í dag föstudaginn 16. september héldum við Dag íslenskrar náttúru hátíðlegan. Börnin í yngri deild buðu til veislu þar sem m.a. var boðið upp á hitt og þetta úr gróðurhúsinu og skólagarðinum; rabarbara, kartöflur að ógleymdum eplunum þremur sem eplatréð gaf af sér. Steiktar voru vöfflur og drukkið kakó en í lok veislunnar skiptum við eplunum á milli okkar og nutum hvers bita í skemmtilegri núvitundaræfingu.
Yrkjusjóður údeildi nýlega 40 birkiplöntum til skólans og var þeim plantað í dag í skógræktarreitinn fyrir ofan skólann. Að lokinni gróðursetningu fengu nemendur að bragða á berjum en af þeim er enn nóg hér í Kaldrananeshreppi.