Sauðburður, fuglar, vorið, verkefnavika og skólasund

Það er mikið um að vera allt í kringum okkur og ekki síst í skólanum.

Í næstu viku verður verkefnavika en þá þreyta nemendur próf og sinna öðrum verkefnum ásamt því að fara í skólasund eftir nokkuð langt hlé. Hjördís Klara íþróttakennari verður með okkur eins og áður og sér um sundprófin í öllum árgöngum. Nú er sauðburður hafinn og börnin fylgjast spennt með, við munum örugglega líta við í fjárhúsunum eins og alltaf á vorin. Börnin í yngstu deild eru næstum því útskrifuð úr íslenskum fuglum en í dag bjuggu þau til fuglagrímur og unnu að upplýsingaspjöldum um fuglana sem þau hafa valið sér. Vorið er skemmtilegur tími og tíminn líður á ógnarhraða þegar mikið er að gera.

Continue Reading

Dagur jarðar

Miðvikudaginn 22. apríl var Dagur jarðar og tóku nemendur skólans sig til og héldu í skrúðgöngu af því tilefni með fullar hjólbörur af tómatplöntum og sólblómafræjum. Plönturnar hafa nemendur ræktað upp af fræi og var þeim komið fyrir í búðinni þar sem íbúar gátu sótt sér plöntu.

Continue Reading

Fuglaskoðunarferð í yngri deild

Yngri deildin mun fást við fugla næstu vikurnar og hófst námið á fuglaskoðunarferð í Sandvík. Við vorum einstaklega heppin með veður og skráðum hjá okkur tíu ólíkar tuglategundir sem við sáum í ferðinni. Þar á meðal voru álftir, rjúpur, grágæsir, spóar, lóur, hrossagaukar og skógarþrestir. Tvær fallegar heiðlóur tóku á móti okkur og kvöddu okkur með fallegum söng að lokinni skoðunarferðinni. Nú þegar vorið er loksins komið munum við nýta hvert tækifæri sem gefst til þess að færa kennsluna út undir beran himin – þar er best að læra!

Continue Reading

Páskafrí!

Nemendur og starfsfólk munu hefja páskafrí í dag en hefð er fyrir því að árshátíð sé haldinn þennan dag en vegna ástandsins hefur henni verið frestað um óákveðin tíma.

Nemendur fóru þess í stað í páskaeggjaratleik og áttu svo notalegan morgun í skólanum. Vorið er komið í pásu en þau létu veðrið ekki hafa áhrif á sig og luku við allar þrautirnar.

Meðfylgjandi er myndband af yngstu nemendunum stíga dans á þessum apríldegi.

Við í Grunnskóla Drangsness óskum ykkur öllum gleðilegra páska og njótum þess að vera heima yfir hátíðarnar.

Continue Reading

Gestakomubann

Eftir tilmæli frá heilsugæslu þá mun frá og með deginum í dag og þar til samkomubanni verður aflétt mun ríkja gestakomubann í skólanum. Staðan verður metin að nýju eftir páska.

Ekki verður tekið á móti nýjum gestanemendum eða utanaðkomandi gestum á tímabilinu en öllum velkomið að hafa samband í síma 451-3436 og í gegnum netfangið skoli@drangsnes.is

Continue Reading

Árshátíð frestað

Árshátíð Grunnskóla Drangsness sem halda átti þann 3. apríl hefur verið frestað vegna samkomubanns. Ný dagsetning verður auglýst þegar hún liggur fyrir.

Skólastarf mun taka einhverjum breytingum fyrir páska en í stað árshátíðarsmiðju munu nemendur fara í matjurtarsmiðju.

Continue Reading

Vorönnin hafin

Nú er vorönnin hafin og mörg spennandi verkefni framundan. Börnin í yngstu deild hafa verið að æfa sig í skrift og gengur ljómandi vel. Eins og flestir vita hefur ekki alltaf verið gott veður í vetur en nú ætti það að fara að breytast. Til þess að flýta fyrir vorinu og óska eftir betra veðri ákváðu nemendur í yngstu deild að blíðka góuna með því að búa til óróa úr trjágreinum og rauðri ull sem hanga nú í gluggum skólans. Við vonum að góan verði okkur góð og hlökkum til þess að njóta vorsins þegar það loksins lætur sjá sig. Nemendur skólans hefur í nógu að snúast við að æfa leikverkið sem frumflutt verður á árshátíð skólans föstudaginn 3. apríl nk. og miðdeildarstelpurnar eru að smíða leikmynd ásamt því að vinna í leikgerðinni.

Continue Reading